Slökkvibúnaður

Slökkvitæki getur bjargað málunum

Vertu með eldvarnateppi og handslökkvitæki á heimili þínu. Sé þeim beitt tímanlega og með réttum hætti, geta tækin komið í veg fyrir stórtjón. Staðsettu slökkvitækið á vegg nærri útgangi og eldvarnateppið á vegg í eða nærri eldhúsi.

 Slökkvitæki

Handslökkvitækjum er ætlað að slökkva eld á byrjunarstigi áður en hann vex og verður óviðráðanlegur. Til eru nokkrar gerðir handslökkvitækja sem eru ætlaðar á mismunandi elda. Eldar eru flokkaðir í þrjá meginflokka; A, B og C elda.

  • „A“ er bruni í föstum, yfirleitt lífrænum efnum þar sem bruni myndar oftast glóð.
  • „B“ er bruni í vökvum eða föstu efni sem bráðnar.
  • „C“ er bruni í gasi (lofttegund).
  • Helstu gerðir handslökkvitækja eru dufttæki, léttvatnstæki og kolsýrutæki.

Dufttæki
Flest dufttæki (ABC-dufttæki) duga á flesta elda og eru því mjög fjölhæf. Þau hafa þó þann galla að duftið úr tækinu skilur eftir sig ryk sem erfitt er að þrífa og veldur tæringu á málmum. Best er að reyna að ryksuga duftið upp en varast að reyna að þvo það burt með vatni. Röng beiting dufttækis getur breitt út eld, til dæmis ef stút tækisins er haldið of nálægt eldi í feiti eða olíu. Ástæðan er sú að duftið þrýstist út af töluverðum krafti og getur þess vegna þeytt eldsneytinu í allar áttir og aukið umfang eldsins. Krafturinn er stundum nægjanlega mikill til þess að skjóta potti af eldavél. Tjón af völdum dufts er oft meira en tjón sem verður af eldi og reyk og tölur geta hlaupið á hundruðum þúsunda samkvæmt skýrslum tryggingafélaga.  Dufti má líkja við gott lyf með aukaverkunum. Slökkvigetan og fjölhæfnin verða þó ekki véfengd. 


Kolsýruslökkvitæki
Kolsýruslökkvitæki henta á B-eld og eld í eldhúsi. Einnig duga þau vel á eld í rafbúnaði líkt og dufttækin en skemma ekkert þar sem kolsýran hverfur þegar hún hefur sinnt sínu hlutverki.  Í höndum þeirra sem þekkja annmarka efnisins er kolsýra þokkalegt slökkviefni. Hún hefur stutta kastlengd, er köld, ryður burt súrefni en slekkur ekki glóð og hentar þess vegna ekki á A-elda (timbur, föt o.fl.) nema til þess að slá á logana. Vatn verður þess vegna að koma á eftir til þess að slökkva glóðina.


Léttvatnstæki
Léttvatnstæki eru nýjasta viðbótin í slökkvitækjaflóruna. Ekki alveg jafnokar dufttækjanna hvað fjölhæfni varðar og slökkvigetu, en hafa þann stóra kost umfram duftið að þau sóða ekkert út. Röng notkun, ef svo má að orði komast, veldur ekki aukinni útbreiðslu elds. Léttvatn hentar á A- og B-eld og að auki á eld í rafbúnaði ef rétt er að verki staðið.

 
Eldvarnateppi nauðsynleg viðbót

Eldvarnateppi eru einnig slökkvitæki, auðveld í meðförum og hafa margsannað gildi sitt. Rétt notkun hindrar að súrefni komist að eldinum. Við það slokknar eldurinn. Eldvarnateppi henta vel til þess að slökkva eld í feiti í potti og ýmsum smærri hlutum sem hægt er að hjúpa inn í teppið. Á heimilum ættu teppin að vera í eldhúsi, sýnileg á vegg og nálægt eldhúsdyrum. Eftir notkun má auðveldlega setja þau aftur í umbúðirnar. Eldvarnateppi koma ekki í staðinn fyrir hin eiginlegu slökkvitæki. Þau eru nauðsynleg viðbót fyrir þá sem vilja hafa eldvarnir í lagi.

 Mannslíf fyrst, eigur síðar

Handslökkvitæki henta aðeins á upphafseld, geta þeirra leyfir ekki meira. Ef eldur uppgötvast í tæka tíð er oft hægt að ráða niðurlögum hans með handslökkvitæki eða eldvarnateppi, allt eftir því sem við á hverju sinni. Mannslíf fyrst, eigur síðar. Hver og einn verður að eiga það við samvisku sína hvort hann eigi að ráðast til atlögu við eld eða ekki. Allan vafa túlkar maður sér í hag, yfirgefur rýmið og lokar því á eftir sér. Það dregur úr útbreiðslu eld og reyks og skemmdir verða þar af leiðandi minni en ella.

Sé lagt til atlögu við eld þarf að tryggja að flóttaleið sé greið. Öruggast er að beygja sig aðeins því yfirleitt er hreinna og svalara loft neðar í rýminu. Halda á slökkvitækinu uppréttu og beina slökkviefninu með jafnri hliðarhreyfingu að rótum eldsins. Það fer síðan eftir stærð og gerð tækisins hve fljótt það tæmist. Það tekur sekúndur en ekki mínútur. Ef ekki tekst að slökkva eld með einu slökkvitæki er umfang eldsins okkur greinilega ofviða. Hugum því að eigin öryggi og yfirgefum vettvanginn. Munum að reykurinn getur skaðað okkur illa. Flestir sem láta lífið í eldsvoðum látast af völdum reykeitrunar.

Slökkvitæki sem notað hefur verið þarf að endurhlaða og yfirfara hjá fagaðila eins fljótt og kostur er. Annars er það gagnslaust. Ráðlegt er að láta yfirfara slökkvitæki árlega til þess að tryggja að tækið virki rétt þegar á þarf að halda.

 Hvað hentar best?

Hvaða gerð slökkvitækis hentar svo best á heimilið? Valið stendur á milli tveggja öflugustu og fjölhæfustu gerðanna.

Léttvatn er öflugt slökkviefni og tjón af völdum léttvatns er lítið miðað við það tjón sem getur orðið af notkun dufttækis.

Þar sem gaseldavélar eru er hins vegar ráðlegt að hafa dufttæki tiltækt, annað hvort sem aðalslökkvitæki heimilisins eða lítið aukatæki í eldhúsi, einungis ætlað á gaseldinn, en hafa léttvatnstækið tiltækt á allt annað. Þetta verður hver og einn að gera upp við sig.

Reykskynjarar, eldvarnateppi og slökkvitæki ættu að vera á hverju heimili, staðsett þar sem við á. Öflugar eldvarnir sem bjarga mannslífum, eru ekki eyðsla heldur lífsnauðsynleg fjárfesting.