Flóttaleiðir

Farðu út, vertu úti…….

Þegar eldur kemur upp þar sem þú sefur geta hiti og reykur valdið dauða nema þú hafir áætlun um hvernig bregðast eigi við, til dæmis um flótta úr svefnherbergi á örfáum sekúndum.
Áætlunin krefst:

  • Reykskynjara
  • Flóttaleiða
  • Flóttaáætlunar sem teiknuð er á blað
  • Fjölskylduumræðna og æfinga.

Þú þarft að hafa a.m.k. tvær flóttaleiðir. Þær geta verið:

  • Framdyr og bakdyr
  • Veggsvalir
  • Nægilega stór hliðarhengdur gluggi með neyðarstiga af efri hæðum
  • Svefnherbergisgluggar

Mundu að tryggja að flóttaleiðir séu ávallt greiðfærar.

Skref 1
Nauðsynlegt er að hafa tvær flóttaleiðir.
Hafðu ávallt tvær leiðir greiðar frá hverju herbergi heimilisins, sérstaklega frá svefnherbergjunum. Gerðu teikningu af heimili þínu þar sem sjáanlegar eru allar dyr og gluggar. Skipulegðu með heimilisfólkinu hvað hver á að gera. Ef þú átt heima í fjölbýlishúsi, þá eiga flóttaleiðir að leiða fólk í stigaganga eða á svalir. Aldrei má nota lyftu í eldsvoða því hún getur stöðvast á þeirri hæð sem eldurinn er á. Farðu yfir allar flóttaleiðir sem þið hafið ákveðið. Athugaðu hvort ekki sé hægt að opna allar dyr og glugga auðveldlega, jafnvel í myrkri. Ef þú átt heima á efri hæð/hæðum, athugaðu þá hvort ekki sé hægt að koma fyrir brunastiga úr glugga eða af svölum þannig að þið eigið örugga leið niður. Hafðu einnig við höndina breitt límband til að líma fyrir hurðir til að seinka því að reykur komist inn í íbúðina. Ef á heimilinu eru lítil börn eða hreyfihamlaðir einstaklingar, látið þá viðkomandi helst sofa á neðri hæðum eða gerið aðrar viðeigandi ráðstafanir til þess að þau komist örugglega út.

Skref 2
Ákveðið mætingarstað úti.
Vertu viss um að allir viti að þeir eigi að fara út strax og vart verður við eld. Hringdu í slökkviliðið úr öruggum síma, t.d. frá nágrannanum. Þegar út er komið ættu allir að hittast á fyrirfram ákveðnum stað þar sem slökkviliðið kemur að byggingunni. Farðu ekki inn í bygginguna aftur eftir að út er komið. Tilkynntu slökkviliðinu ef einhver er lokaður inni og láttu slökkviliðsmennina um björgunina. Þeir hafa tækin og þekkinguna til þess að fara um brennandi hús.

Skref 3
Æfðu flóttaáætlunina.
Í hvert skipti sem þú og fjölskylda þín hafið eldvarnaæfingu, líktu þá eftir raunveruleikanum eins og hægt er. Æfðu flóttaáætlunina a.m.k. á sex mánaða fresti. Fáðu einhvern til að líkja eftir hljóði reykskynjarans og til að fylgjast með að allir taki þátt af fullri einlægni. Meira en helmingur allra bruna á sér stað þegar fólk er í fasta svefni. Byrjið því æfinguna á því að allir fari í sitt svefnherbergi og bíði þar eftir viðvöruninni. Gerið æfinguna eins raunverulega og hægt er og æfið að fara út um báðar flóttaleiðirnar. Látið eins og einhverjir hlutar hússins og þar með flóttaleiðir séu lokaðar af eldi og reyk, það séu engin ljós og að stigagangar séu fullir af reyk.

Skref 4
Vertu viðbúinn hinu óvænta.
Ef þú ert ekki með nægilega marga virka reykskynjara, þannig að þú getir brugðist fljótt við ef eldur kviknar, þá getur reykur og eldur lokað flóttaleiðum þínum. Bæði reykur og eldur eru lífshættulegir. Þreifaðu því ávallt hurðir áður en þú opnar þær. Krjúptu eða skríddu að hurðinni, teygðu höndina eins hátt upp og hægt er og leggðu hana að hurðinni, hurðarhúninum og rifunni milli stafs og hurðar. Ekki opna hurðina ef hún er heit, notaðu heldur hina flóttaleiðina þína. Opnaðu hurðina með varúð þótt hún sé köld og vertu tilbúinn að loka henni aftur ef hiti og/eða reykur kemur inn. Ef eina leiðin sem þú hefur er í gegnum reykinn, skríddu á höndum og fótum með höfuðið eins lágt og þú getur að næsta útgangi. Reykurinn er heitur og mun stíga upp á við, þess vegna getur verið þokkalegt loft niðri við gólf (10-20 cm.) í nokkurn tíma.
Flóttaleiðir í fjölbýlishúsum eiga að beina fólki í stigaganga en ekki í lyftur. Lyftur má aldrei nota í eldsvoða því þær geta stöðvast á þeirri hæð sem eldurinn er. Í flestum fjölbýlishúsum er gert ráð fyrir því að önnur flóttaleið af tveimur sé út á svalir. Ef þú kemst ekki út í stigahúsið vegna reyks og elds þá lokarðu hurðinni strax og ferð í staðinn út á svalir, þar áttu að geta beðið í öruggu skjóli fyrir eldinum þar til hjálp berst.
Sérstök athygli er vakin á að SHS býður húsfélögum á höfuðborgarsvæðinu ókeypis skoðun eldvarna í sameign og eru húsfélög hvött til að notfæra sér þá þjónustu.

Stigar og siglínur við björgunarop
Aðstæður eru víða þannig í eldra húsnæði að aðeins ein trygg flóttaleið er úr íbúð. Þá getur reynst nauðsynlegt að setja stiga eða siglínu við björgunarop, til dæmis glugga. Nokkrir valkostir eru í boði: Seftarar eru kaðal- og keðjustigar úr treg- eða óbrennanlegum efnum. Þeir eru festir á vegg við glugga eða eru færanlegir með festingum sem settar eru yfir gluggakistu. Þessir stigar geta sveiflast nokkuð til og eru erfiðir fyrir ung börn nema einhver haldi við þá að neðan. Þessir stigar duga fyrir tveggja til þriggja hæða hús og eru ódýr lausn. Álstigar eru til í mörgum útfærslum. Þeir líta út eins og niðurfall úr þakrennu þegar þeir eru ekki í notkun en standa eins og venjulegir stigar við hús þegar þeir eru í notkun en þá snýr önnur langhliðin að veggnum. Álstigar eru auðveldir í notkun fyrir alla, duga fyrir stærri hús en eru nokkuð dýrir. Siglínur eru til í nokkrum gerðum. Algengast er að siglínan eða festing fyrir hana sé á vegg við glugga. Lykkju á enda línunnar er brugðið utan um þann sem ætlar út og sígur hann hægt og rólega til jarðar. Siglínur geta verið með tvöfaldri lengd til jarðar og lykkju á báðum endum þannig að þegar einn er kominn niður er hinn endinn tilbúinn fyrir næsta mann uppi. Siglínur duga fyrir tveggja til þriggja hæða hús og eru ódýr og auðveld lausn fyrir alla. Ávallt skal velja viðurkenndan búnað.